Bifogade filer
Kurs & Likviditet
Prenumeration
Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Large Cap Iceland |
Sektor | Finans |
Industri | Bank |
Hagnaður Arion banka á 1. ársfjórðungi 2024 var 4.432 m.kr
Lykiltölur á 1F 2024
- Hagnaður Arion banka á 1F 2024 var 4.432 m.kr., samanborið við 6.291 m.kr. á 1F 2023
- Arðsemi eiginfjár var 9,1%, samanborið við 13,7% á 1F 2023
- Hagnaður á hlut var 3,07 krónur, samanborið við 4,32 á 1F 2023
- Hreinn vaxtamunur var 3,1%, óbreyttur frá 1F 2023
- Þóknanastarfsemin skilar lægri tekjum en undanfarna fjórðunga og námu heildarþóknanir 3,4 mö.kr.
- Kjarnatekjur, þ.e. hreinar vaxta-, þóknana- og tryggingatekjur (án rekstrarkostnaðar tryggingastarfseminnar), drógust saman um 2% í samanburði við 1F 2023, aðallega vegna þóknanastarfseminnar
- Virkt skatthlutfall var 37,8% sem er óvenju hátt og skýrist af óhagstæðri samsetningu tekna
- Kostnaður sem hlutfall af kjarnatekjum var 48,4% á 1F, samanborið við 46,8% á 1F 2023
- Efnahagsreikningur bankans hefur stækkað um 1,2% frá árslokum 2023
- Greiddur var 13,1 ma.kr. arður á fjórðungnum sem samsvaraði 9,0 krónum á hlut
- Lán til viðskiptavina hafa aukist um 2,2% á fjórðungnum. Hækkun á lánum til fyrirtækja var 3,2% og 1,4% á lánum til einstaklinga, einkum íbúðalán
- Innlán frá viðskiptavinum jukust um 1,2% á fjórðungnum
- Eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) var 23,2% og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 18,8% í lok mars. Hlutföllin taka tillit til óendurskoðaðs hagnaðar fjórðungsins að teknu tilliti til væntrar arðgreiðslu, sem nemur 50% af hagnaði í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans, og heimilaðra endurkaupa eigin bréfa að fjárhæð 5 ma.kr. Eiginfjárhlutfall samkvæmt reglum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands var 22,9% í lok mars og hlutfall eiginfjárþáttar 1 18,6%. Eiginfjárhlutfall og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 eru vel umfram kröfur sem settar eru fram í lögum og af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka
„Afkoma fyrsta ársfjórðungs er undir markmiðum okkar. Lægri afkoma nú skýrist fyrst og fremst af lægri þóknanatekjum og háu skatthlutfalli þar sem tap vegna hlutabréfa sem haldið er gegn framvirkum samningum leiðir til 38% skatthlutfalls á fjórðungnum. Eiginfjár- og lausafjárstaða er áfram mjög sterk sem og fjármögnun bankans. Við vinnum nú að því að ná markmiðum okkar varðandi hlutfall eiginfjárþáttar 1. Í lok tímabilsins var hlutfallið 18,8% sem er 3,5 prósentustigum yfir kröfum eftirlitsaðila en markmið okkar er að vera 1,5-2,5 prósentustigum yfir þeirra kröfum. Í gangi er endurkaupaáætlun sem er liður í því að færa hlutfallið nær markmiði okkar.
Við sjáum að nokkuð hefur hægst á umsvifum í efnahagslífinu í ljósi hárra stýrivaxta og er það eitt af því sem hefur áhrif til lækkunar á þóknanatekjum tímabilsins. Við lokuðum einnig þjónustu okkar á Keflavíkurflugvelli í lok janúar, í kjölfar útboðs ISAVIA, eftir að hafa verið með starfsemi á flugvellinum frá árinu 2016. Við erum stolt að þeirri þjónustu sem við buðum gestum flugvallarins á þessum viðburðaríku árum. Starfsfólk okkar lagði sig fram um að taka vel á móti öllum þeim sem fóru um flugvöllinn og stóð sig frábærlega, á stundum við krefjandi aðstæður.
Nýverið keypti nýr sjóður á vegum Stefnis, dótturfélags Arion banka, Heimstaden á Íslandi. Um er að ræða stærsta íbúðaleigufélag landsins en félagið á um 1.600 íbúðir hér á landi. Nær allir lífeyrissjóðir landsins koma að sjóðnum sem er um 40 milljarðar að stærð. Markmið sjóðsins er að stuða að uppbyggingu íbúðahúsnæðis hér á landi og tvöfalda fjölda íbúða í eigu félagsins fyrir árið 2030. Það er mjög ánægjulegt hve vel tókst til við stofnun sjóðsins og hve breið þátttaka lífeyrissjóða er í þessu mikilvæga verkefni.”
Fundur / vefstreymi fyrir markaðsaðila 2. maí kl. 8:30
Fjárfestafundur fyrir markaðsaðila verður fimmtudaginn 2. maí klukkan 8:30 í Borgartúni 19 þar sem Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka og Ólafur Hrafn Höskuldsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs munu kynna afkomu bankans og Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arion banka mun fara yfir stöðu efnahagslífsins. Fundurinn fer fram á ensku og verður streymt beint.
Hægt verður að nálgast streymið á Lumiconnect og á fjárfestatengslavef bankans.
Þátttakendur sem fylgjast með rafrænt geta spurt spurninga á meðan á fundi stendur í gegnum spjallþráð á sömu síðu. Spurningum verður svarað að loknum kynningum.
Fjárhagsdagatal
Fjárhagsdagatal Arion banka er aðgengilegt á heimasíðu bankans.