Bifogade filer
Kurs & Likviditet
Prenumeration
Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Large Cap Iceland |
Sektor | Finans |
Industri | Bank |
Hagnaður Arion banka á 3F 2024 nam 7,9 milljörðum króna. Fundur og vefstreymi fyrir markaðsaðila 31. október kl. 8:30
Lykiltölur á þriðja ársfjórðungi 2024
- Hagnaður Arion banka á 3F 2024 var 7,9 ma.kr., samanborið við 6,1 ma.kr. á 3F 2023
- Arðsemi eiginfjár var 16,1%, samanborið við 12,9% á 3F 2023
- Hagnaður á hlut var 5,62 krónur, samanborið við 4,19 á 3F 2023
- Vaxtamunur á vaxtaberandi eignir var 3,1%, samanborið við 3,0% á 3F 2023
- Góður fjórðungur í þóknanastarfsemi sem skilar 3,9 mö.kr., samanborið við 3,8 ma.kr. á 3F 2023
- Vörður skilaði 1,7 ma.kr. hagnaði sem er besti fjórðungur í sögu félagsins
- Kjarnatekjur, þ.e. hreinar vaxta-, þóknana- og tryggingatekjur (án rekstrarkostnaðar tryggingastarfseminnar), jukust um 13,9% í samanburði við 3F 2023
- Rekstrarkostnaður jókst um 11,7% samanborið við 3F 2023
- Virkt skatthlutfall var 21,1%
- Kostnaður sem hlutfall af kjarnatekjum var 37,5%, samanborið við 38,2% á 3F 2023
- Efnahagsreikningur bankans stækkaði um 2,4% á fjórðungnum
- Lán til viðskiptavina jukust um 1,5% á fjórðungnum. Hækkun á lánum til fyrirtækja var 1,8% og 1,2% á lánum til einstaklinga, einkum íbúðalán
- Endurkaup eigin hlutabréfa námu 7,9 mö.kr. á fjórðungnum
- Eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) var 23,2% og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 18,8% í lok september. Hlutföllin taka tillit til óendurskoðaðs hagnaðar fjórðungsins að teknu tilliti til væntrar arðgreiðslu, sem nemur 50% af hagnaði í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans. Eiginfjárhlutfall samkvæmt reglum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands var 22,8% í lok september og hlutfall eiginfjárþáttar 1 18,3%. Eiginfjárhlutfall og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 eru vel umfram kröfur sem settar eru fram í lögum og af Fjármálaeftirlitinu.
Lykiltölur fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2024
- Hagnaður Arion banka var 17,8 ma.kr. á 9M 2024, samanborið við 19,5 ma.kr. á 9M 2023
- Arðsemi eiginfjár var 12,2%, samanborið við 13,9% á 9M 2023
- Hagnaður á hlut var 12,45 krónur, samanborið við 13,40 á 9M 2023
- Vaxtamunur á vaxtaberandi eignir var 3,1%, óbreyttur frá 9M 2023
- Hreinar þóknanatekjur námu 11,2 mö.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins og dragast saman um 10,1% frá fyrra ári
- Kjarnatekjur, þ.e. hreinar vaxta-, þóknana- og tryggingatekjur (án rekstrarkostnaðar tryggingastarfseminnar), aukast um 4,3% samanborið við 9M 2023
- Rekstrarkostnaður hækkar um 10,4% samanborið við sama tímabil 2023
- Virkt skatthlutfall var hátt eða 29,6% og skýrist af óhagstæðri samsetningu tekna og gjalda
- Kostnaður sem hlutfall af kjarnatekjum var 43,8%, samanborið við 41,4% á 9M 2023
- Efnahagsreikningur bankans hefur stækkað um 5,2% frá árslokum 2023
- Kaup eigin hlutabréfa námu 12,5 mö.kr. á fyrstu níu mánuðunum
- Greiddur var 13,1 ma.kr. arður á 1F sem samsvarar 9,0 krónum á hlut
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka
“Afkoma Arion banka á þriðja ársfjórðungi er góð og í samræmi við okkar áætlanir. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá hve vel starfsemi Varðar trygginga gekk á fjórðungnum en um er að ræða einn besta ársfjórðung í sögu fyrirtækisins. Aðrir þættir í okkar kjarnastarfsemi gengu sömuleiðis vel og skila góðri afkomu. Óhætt er að segja að áhersla okkar á fjölbreytta fjármálaþjónustu og þar með fjölbreyttar tekjustoðir stuðli að ákveðnum stöðugleika í okkar starfsemi. Sem fyrr er eigin- og lausafjárstaða bankans sterk og vel yfir kröfum eftirlitsaðila.
Við höldum áfram að setja okkur í samband við viðskiptavini sem eru með íbúðalán sem eru að fara af föstum vöxtum til að fara yfir þá valkosti sem í boði eru til að lækka greiðslubyrði. Þetta er hópur sem hefur notið afar hagstæðra vaxta á tímabili hárra stýrivaxta en þurfa nú að takast á við hærri greiðslubyrði. Ýmsir kostir eru í boði en að vissu leyti má segja að það sé uppi óheppileg staða því stýrivextir eru enn 9% á sama tíma og verðbólga hefur lækkað niður í 5,1%. Munurinn þarna á milli er of mikill sem leiðir til þess að raunvextir og þar með verðtryggðir vextir eru sögulega háir. Verðtryggð íbúðalán hafa verið það skjól sem mörg heimili hafa leitað í og því mikilvægt að stýrivextir haldi áfram að lækka svo raunvaxtastigið hér á landi lækki. Núverandi vaxtaumhverfi er þess valdandi að við erum varfærin í okkar niðurfærslum.
Í septembermánuði endurnýjaði Arion banki samstarf sitt við Evrópska fjárfestingasjóðinn. Við unnum saman fyrir um átta árum og það samstarf lagði grunninn að öflugum stuðningi við fjölmörg nýsköpunarverkefni hér á landi t.a.m. á sviði fiskeldis, gagnavera, umhverfisvænna orkugjafa og húðvara. Markmið samstarfs okkar nú er að styðja sértaklega við íslenska frumkvöðla í gegnum láveitingar sem Evrópski fjárfestingarsjóðurinn mun ábyrgjast. Samstarfið gerir okkur kleift að lána allt að 15 milljarða króna til smárra og meðalstórra fyrirtækja á hagstæðari kjörum en ella og koma fyrr að verkefnum sem þurfa á fjármagni að halda. Við munum sérstaklega horfa til þriggja sviða; sjálfbærni, nýsköpunar og stafvæðingar og menningar.
Þessu tengt þá urðu tímamót hjá okkur þegar við gáfum nýverið út sjálfbæra fjármálaumgjörð. Umgjörðin leysir af hólmi græna fjármálaumgjörð bankans og tekur til fjármögnunar bankans og lánveitinga sem flokkast sem umhverfis- og/eða samfélagslega sjálfbær. Við höfum lagt ríka áherslu á sjálfbært vöruúrval og bjóðum viðskiptavinum okkar meðal annars græn íbúðarlán, bílalán, innlán og fyrirtækjalán. Nýja umgjörðin mun nýtast við enn frekari vöruþróun á sviði sjálfbærrar bankaþjónustu og við útgáfu sjálfbærra skuldabréfa.”
Fundur / vefstreymi fyrir markaðsaðila 31. október kl. 8:30
Fjárfestafundur fyrir markaðsaðila verður fimmtudaginn 31. október klukkan 8:30 í Borgartúni 19 þar sem Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka og Ólafur Hrafn Höskuldsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs munu kynna afkomu bankans og Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arion banka mun fara yfir stöðu efnahagslífsins. Fundurinn fer fram á ensku og verður einnig streymt beint.
Hægt verður að nálgast streymið á Lumiconnect og á fjárfestatengslavef bankans.
Þátttakendur sem fylgjast með rafrænt geta spurt spurninga á meðan á fundi stendur í gegnum spjallþráð á sömu síðu. Spurningum verður svarað að loknum kynningum.
Fjárhagsdagatal
Fjárhagsdagatal Arion banka er aðgengilegt á heimasíðu bankans.