Bifogade filer
Prenumeration
Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Large Cap Stockholm |
Sektor | Finans |
Industri | Bank |
Vísað er til fréttatilkynningar frá Arion banka hf. sem birt var 19. desember 2024, þar sem tilkynnt var að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefði veitt bankanum heimild til að framkvæma endurkaup á eigin bréfum á Íslandi og á heimildarskírteinum (SDR) útgefnum í Svíþjóð. Stjórnendur bankans hafa nú ákveðið að hefja endurkaup sem nema allt að 3,0 milljörðum króna eða allt að 19.354.800 hluti og SDR, sem nemur um 1,279% af útgefnu hlutafé bankans.
Landsbankinn hf. mun hafa umsjón með framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar á Íslandi og í Svíþjóð. Mun Landsbankinn hf. taka allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna óháð Arion banka hf. Áætlunin tekur gildi á báðum mörkuðum þann 10. janúar 2025 og gildir til 12. mars 2025. Arion banki hf. hefur heimild til að stöðva framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar hvenær sem er á þessu tímabili. Markmið endurkaupa er að lækka hlutafé bankans í samræmi við arðgreiðslustefnu.
Heimilt verður að kaupa allt að 387.096 SDR í Svíþjóð, sem samsvarar 0,026% af útgefnum hlutum og allt að 18.967.704 hluti á Íslandi, eða sem svara til 1,253% af útgefnum hlutum bankans (samtals um 1,279% af útgefnum hlutum). Fjárhæð endurkaupanna skal ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar til 60.000.000 kr. í Svíþjóð og 2.940.000.000 kr. á Íslandi (samtals 3,0 milljarðar króna). Við upphaf endurkaupaáætlunarinnar á bankinn 100.644.094 eigin hluti sem jafngildir um 6,65% af útgefnum hlutum bankans.
Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar verður þannig háttað að kaup hvers dags í kauphöll Nasdaq Ísland og Nasdaq Stokkhólmi verða að hámarki 25% af meðaldagsveltu með hlutabréf eða SDR bankans á undangengnum 20 viðskiptadögum áður en kaup gerast.
Í kauphöll Nasdaq Stokkhólmi mega kaup aðeins eiga sér stað innan þess verðbils sem gildir á Nasdaq Stokkhólmi, þar sem verðbilið nær frá hæsta kaupverði (e. best bid) til lægsta söluverðs (e. best offer) sem í gildi er og tekið saman hjá Nasdaq Stokkhólmi, allt í samræmi kafla H í viðbæti D við Reglubók fyrir útgefendur hlutafjár á aðalmörkuðum Nasdaq Nordic sem tók gildi þann 1. janúar 2024.
Í kauphöll Nasdaq á Íslandi skal verð fyrir hvern hlut að hámarki samsvara hæsta verði í síðustu óháðu viðskiptum eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboð í viðskiptakerfi Nasdaq Ísland, hvort sem hærra er, allt í samræmi við ákvæði framseldar reglugerðar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 2016/1052, sem lagagildi hefur á Íslandi.
Endurkaupaáætlunin verður framkvæmd í samræmi við lög og reglur á Íslandi og í Svíþjóð, eins og við á, þar með talin Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um markaðssvik („MAR“) og ákvæði framseldar reglugerðar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 2016/1052, sem og íslensk lög um hlutafélög nr. 2/1995, lög nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum auk reglna nr. 1275/2024 um sama efni. Viðskipti með eigin hluti í samræmi við endurkaupaáætlunina verða birt opinberlega í samræmi við gildandi lög og reglur í Svíþjóð og á Íslandi, eins og við á.