Bifogade filer
Prenumeration
Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Mid Cap Iceland |
Sektor | Tjänster |
Industri | Fordon & Transport |
Icelandair flutti 264 þúsund farþega í janúar 2025, 17% fleiri en á sama tíma í fyrra en flugframboð jókst um 8%. Þar af voru 29% farþega á leið til Íslands, 19% frá Íslandi, 45% ferðuðust um Ísland og 7% innan Íslands. Sætanýting hefur aldrei verið betri í janúarmánuði eða 77% og jókst um 8 prósentustig á milli ára. Stundvísi nam 77,6%.
Icelandair hefur bætt við upplýsingum um þróun tekna á hvern seldan sætiskílómetra (e. yield) í umfjöllun um mánaðarlegar flutningatölur félagsins. Þessi mælikvarði, ásamt þróun sætanýtingar, gefur vísbendingu um tekjumyndun í leiðakerfi félagsins, en segir þó ekki til um þróun heildartekna, þar sem meðal annars er ekki tekið tillit til tekna af fluttri frakt og ákveðinna hliðartekna (e. ancillary revenue).* Tekjur á hvern seldan sætiskílómetra námu 8,1 bandarísku senti og lækkuðu um 3% samanborið við janúar á síðasta ári, að mestu leyti vegna hærra hlutfalls farþega sem ferðuðust um Ísland (e. via passengers) en á sama tíma í fyrra. Bætt sætanýting vó hins vegar upp á móti þessari lækkun og skilaði sér í hækkun einingatekna á milli ára.
Seldir blokktímar í leiguflugi voru 96% fleiri en í janúar í fyrra, þar sem fjöldi flugvéla í rekstri og nýting þeirra jókst á milli ára. Fraktflutningar jukust um 1% miðað við sama mánuð í fyrra. Kolefnislosun á hvern tonnkílómetra dróst saman um 11% samanborið við janúar í fyrra vegna betri sætanýtingar og fleiri ferða á hagkvæmari B737 MAX og A321 LR vélum.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Í janúar héldum við áfram að sjá jákvæða þróun í fjölda farþega til Íslands. Á sama tíma var mikil eftirspurn eftir flugi frá Íslandi og á Atlantshafsmarkaðnum sem endurspeglaðist í met sætanýtingu í mánuðinum. Þá gekk innanlandsflugið áfram vel.
Við erum stolt og þakklát af því að eiga ánægðustu viðskiptavinina á meðal flugfélaga á Íslandi annað árið í röð samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni. Við tökum viðurkenningunni sem hvatningu til þess að halda áfram að veita farþegum okkar framúrskarandi þjónustu.
Þá héldum við áfram að stækka leiðakerfið okkar og í síðustu viku tilkynntum við Miami sem okkar 19. áfangastað í Norður-Ameríku. Árið 2025 verður stærsta árið í sögu Icelandair þar sem við munum bjóða viðskiptavinum okkar upp á fleiri ferðamöguleika en nokkru sinni fyrr.“
*Tekjur á hvern seldan sætiskílómeter (e.yield) er skilgreint sem farmiðatekjur ásamt tekjum af yfirvigt, uppfærslu milli farrýma og sætavali deilt með fjölda seldra sætiskílómetra (e. RPK Revenue Passenger Kilometers). Þessi mælikvarði, að teknu tilliti til þróunar í sætanýtingu gefur vísbendingu um tekjumyndun í leiðakerfi félagsins, en segir þó ekki til um þróun heildartekna, þar sem ekki er tekið tillit til tekna af fluttri frakt, annarra farþegatengdra viðbótartekna (e. ancillary revenue) og uppgjörsfærslna, sem falla undir heildartekjur leiðakerfisins í fjárhagsuppgjöri félagsins.