Bifogade filer
Prenumeration
Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Large Cap Iceland |
Sektor | Finans |
Industri | Storbank |
Hagnaður af rekstri nam 6,3 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi 2024 og 24,2 milljörðum króna fyrir árið í heild
HELSTU ATRIÐI Í AFKOMU
Helstu atriði í fjárhagslegri afkomu fjórða ársfjórðungs 2024 (4F24)
· Hagnaður af rekstri nam 6,3 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi 2024 (4F23: 6,2 milljarðar króna). Arðsemi eigin fjár var 11,2% á ársgrundvelli (4F23: 11,2%).
· Hreinar vaxtatekjur námu 10,9 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi 2024 og lækkuðu um 855 milljónir króna á 4F24 samanborið við 4F23.
· Vaxtamunur var 2,7% á fjórða ársfjórðungi, samanborið við 2,9% á fjórða ársfjórðungi 2023.
· Hreinar þóknanatekjur jukust um 3,2% samanborið við fjórða ársfjórðung 2023 og námu samtals 3,6 milljörðum króna á fjórðungnum.
· Hreinar fjármagnstekjur námu 169 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi 2024, samanborið við fjármagnstekjur að fjárhæð 455 milljónir króna á 4F23.
· Aðrar rekstrartekjur námu 782 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi, samanborið við 258 milljónir króna á 4F23.
· Stjórnunarkostnaður nam 7,1 milljarði króna á fjórða ársfjórðungi 2024, samanborið við 6,6 milljarða króna á 4F23, að undanskilinni 100 milljón króna stjórnvaldssekt, sem er 7,7% hækkun á milli ára.
· Kostnaðarhlutfall bankans var 45,7% á fjórðungnum. Kostnaðarhlutfallið var 41,1% á 4F23.
· Virðisbreyting fjáreigna var jákvæð um 352 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi 2024 samanborið við virðisrýrnun sem nam 1.002 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi 2024. Áhættukostnaður útlána (e. Cost of risk) var -0,11 prósentustig á ársgrundvelli á fjórða ársfjórðungi 2024 samanborið við 0,33 prósentustig á sama ársfjórðungi 2023.
· Útlán til viðskiptavina jukust um 21,3 milljarða króna á fjórðungnum um 1,7% frá þriðja ársfjórðungi og voru 1.295 milljarðar króna í lok árs 2024.
· Innlán frá viðskiptavinum voru svo til óbreytt milli loka þriðja og fjórða ársfjórðungs 2024 og námu 927 milljörðum króna í lok fjórðungsins.
· Eigið fé nam 227,4 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins, samanborið við 224,7 milljarða króna í lok árs 2023.
· Eiginfjárhlutfall var 23,2% í lok fjórða ársfjórðungs 2024, samanborið við 25,3% í árslok 2023. Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 (CET1) var 20,1%, samanborið við 21,4% í árslok 2023. Eiginfjárhlutfall almennt þáttar 1 var 470 punktum yfir kröfum eftirlitsaðila í lok ársfjórðungsins, og hærra en fjárhagslegt markmið bankans um að vera með 100-300 punkta eiginfjár svigrúm umfram kröfur eftirlitsaðila.
· Lágmarkskrafa um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (MREL) er 19,6% af áhættugrunni, til viðbótar við samanlagða kröfu um eiginfjárauka. Í lok árs 2024 var MREL bankans 33,4%, 390 punktum yfir kröfum eftirlitsaðila.
Helstu atriði í fjárhagslegri afkomu ársins 2024
· Hagnaður af rekstri árið 2024 nam 24,2 milljörðum króna (2023: 24,6 milljarðar króna). Arðsemi eigin fjár var 10,9% á ársgrundvelli (2023: 11,3%).
· Hreinar vaxtatekjur ársins námu 47,3 milljörðum króna, sem er samdráttur um 2,8% á milli ára.
· Hreinar þóknanatekjur drógust saman um 1,2% á milli ára, og námu 13,1 milljarði króna árið 2024, samanborið við 13,3 milljarða króna árið 2023.
· Hrein fjármagnsgjöld voru 338 milljónir króna á árinu 2024, samanborið við fjármagnstekjur að fjárhæð 241 milljón króna árið 2023.
· Aðrar rekstrartekjur námu 2.282 milljónum króna árið 2024, samanborið við 570 milljónir króna árið 2023.
· Stjórnunarkostnaður var 27,6 milljarðar króna fyrir árið 2024, ef frá er talin 470 milljón króna stjórnvaldssekt sem gjaldfærð var á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 25,7 milljarða króna stjórnunarkostnað ársins 2023, ef frá er talin gjaldfærsla að fjárhæð 960 milljónir króna vegna stjórnvaldssektar.
· Kostnaðarhlutfall bankans, leiðrétt fyrir stjórnvaldssektum, hækkaði úr 40,6% árið 2023 í 43,9% fyrir árið 2024.
· Virðisbreyting fjáreigna var jákvæð um 645 milljónir króna á árinu 2024, samanborið við virðisrýrnun sem nam 1.015 milljónum króna fyrir árið 2023.
Bestun efnahagsreiknings, arðgreiðslur og útgreiðsla á umfram eigin fé
· Stjórn Íslandsbanka mun leggja til 12,1 milljarða króna arðgreiðslu við aðalfund bankans í mars. Það er í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans um að greiða um 50% af hagnaði fyrra árs í arð til hluthafa.
· Áform um bestun eiginfjársamsetningar bankans standa enn, að teknu tilliti til markaðsaðstæðna. Líkt og áður hefur komið fram getur slíkt falið í sér bæði innri og ytri vöxt, sem og greiðslu til hluthafa, hvort heldur sem er í formi sérstakrar arðgreiðslu og/eða með endurkaupum á eigin hlutum.
· Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur veitt bankanum heimild fyrir allt að 15 milljarða króna endurkaupa eigin hluta að markaðsvirði. Bankinn mun tilkynna um tímasetningu og framkvæmd endurkaupa samkvæmt framangreindri heimild þegar ákvörðun um þau hefur verið tekin. Fjármálaeftirlitið hefur einnig veitt bankanum heimild til lækkunar hlutafjár sem nemur fjárhæð þeirra eigin hluta sem keyptir eru á grundvelli heimilda fjármálaeftirlitsins sem veittar voru árin 2023 og 2024. Heildarfjárhæð þeirra heimilda var 15 milljarðar króna, og hefur bankinn þegar keypt eigin hluti fyrir um 12,5 milljarða króna.
· Stjórn bankans mun óska eftir endurnýjaðri heimild til endurkaupa á eigin bréfum að því marki sem lög leyfa á aðalfundi bankans í mars 2025.
· Gert er ráð fyrir að innleiðing reglugerðar sem snýr að mati á eiginfjárþörf banka (CRR3) leiði til þess að áhættugrunnur bankans dragist saman um 4-5% við innleiðingu og muni aukast lítillega yfir árið 2025, sem eykur útgreiðslugetu umfram eigin fjár eða eykur vaxtarmöguleika. Gert er ráð fyrir því að CRR3 hækki heildar eiginfjárhlutfall um 1,10 prósentustig í 24,3% og eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 um 1,0 prósentustig í 21,1%. Bankinn hefur þegar undirbúið nauðsynlegar breytingar í aðdraganda innleiðingarinnar og er með til reiðu breytt vöruframboð með það að markmiði að innleiða breytt regluverk.
Lykiltölur
4F24 | 3F24 | 2F24 | 1F23 | 4F23 | ||
REKSTUR | Hagnaður tímabils, m.kr. | 6.283 | 7.280 | 5.266 | 5.417 | 6.228 |
Arðsemi eigin fjár | 11,2% | 13,2% | 9,7% | 9,8% | 11,2% | |
Vaxtamunur (af heildareignum) | 2,7% | 2,9% | 3,1% | 3,0% | 2,9% | |
Kostnaðarhlutfall 1,2 | 45,7% | 40,4% | 45,7% | 43,9% | 41,1% | |
Áhættukostnaður útlána 3 | (0,11%) | (0,27%) | (0,04%) | 0,23% | 0,33% | |
31.12.24 | 30.9.24 | 30.6.24 | 31.3.24 | 31.12.23 | ||
EFNAHAGUR | Útlán til viðskiptavina, m.kr. | 1.295.388 | 1.274.094 | 1.276.608 | 1.248.295 | 1.223.426 |
Eignir samtals, m.kr. | 1.607.807 | 1.622.458 | 1.595.896 | 1.643.707 | 1.582.694 | |
Áhættuvegnar eignir, m.kr. | 1.040.972 | 1.021.243 | 1.019.494 | 1.015.161 | 977.032 | |
Innlán frá viðskiptavinum, m.kr. | 926.846 | 927.011 | 916.127 | 879.554 | 850.709 | |
Útlán til viðskiptavina / innlán frá viðskiptavinum | 140% | 137% | 139% | 142% | 144% | |
Hlutfall lána með laskað lánshæfi 4 | 1,6% | 1,6% | 1,8% | 1,9% | 1,8% | |
LAUSAFÉ | Fjármögnunarhlutfall (NSFR), allir gjaldmiðlar | 125% | 126% | 123% | 127% | 124% |
Lausafjárþekjuhlutfall (LCR), allir gjaldmiðlar | 168% | 223% | 190% | 190% | 195% | |
EIGIÐ FÉ | Eigið fé samtals, m.kr. | 227.355 | 223.388 | 216.501 | 215.718 | 224.693 |
Eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 5 | 20,1% | 20,2% | 19,9% | 19,9% | 21,4% | |
Eiginfjárhlutfall þáttar 1 5 | 21,0% | 21,2% | 20,9% | 20,9% | 22,5% | |
Eiginfjárhlutfall 5 | 23,2% | 23,4% | 23,1% | 23,6% | 25,3% | |
Vogunarhlutfall 5 | 13,2% | 13,0% | 13,0% | 12,6% | 13,4% | |
MREL hlutfall 6 | 33,4% | 35,6% | 35,6% | 39,1% | 41,3% |
1. Reiknað sem: (stjórnunarkostnaður – einskiptisliðir) / (heildarrekstrartekjur – einskiptisliðir).
2. Kostnaðarhlutfall undanskilur stjórnvaldssekt að fjárhæð 470 m.kr. á 2F24 og 100 m.kr. á 4F23.
3. Neikvæður áhættukostnaður merkir að það hafi verið nettó tekjufærsla úr virðisrýrnunarsjóði.
4. Stig 3, útlán til viðskiptavina, vergt bókfært virði.
5. Að meðtöldum 1F24 hagnaði fyrir 31.3.24.
6. MREL hlutfallið er birt að meðtöldu almennu eiginfé þáttar 1 sem er haldið til að mæta samanlagðri kröfu um eiginfjárauka.
Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka
Fjórði ársfjórðungur 2024 einkenndist einna helst af því að Seðlabanki Íslands hóf loks vaxtalækkunarferli, eftir langt tímabil hárra vaxta. Áhrifa þessa gætti mjög á verðbréfamarkaði á fjórðungnum og nam hækkun OMX Iceland 15 vísitölunnar um 15,8% á tímabilinu. Afkoma Íslandsbanka var góð og nam hagnaðurinn 6,3 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi og var arðsemi eiginfjár 11,2%. Var það þrátt fyrir að verðbólguójöfnuður næmi 193 milljörðum króna í lok árs. Inn í góða afkomu bankans á fjórðungnum spilar hækkun á virði fjárfestingareigna og jákvæð áhrif virðisbreytinga útlánasafns. Afkoman fyrir árið í heild nam 24,2 milljörðum og var arðsemin 10,9%, sem er yfir fjárhagsmarkmiðum bankans. Kostnaðarhlutfall bankans nam 45,7% á fjórðungnum og 43,9% fyrir árið í heild. Samanborið við árslokatölur 2023 jukust útlán um 5,9% á ársgrundvelli sem er nokkuð meiri vöxtur en varð árið áður. Eiginfjárstaða bankans er afar sterk og í lok árs 2024 nam eigin fjárhlutfall almenns þáttar 1 (CET1) 20,1% sem er 270 punktum yfir markmiði bankans miðað við miðgildi 100-300 punkta stjórnendaauka. Áform um bestun á eiginfjársamsetningu bankans eru enn í forgangi, að teknu tilliti til markaðsaðstæðna.
Í nýjum stefnuvita bankans er kastljósinu beint að fjárhagslegri heilsu viðskiptavina og mun bankinn áfram kappkosta við að efla viðskiptavini sína með fræðslu og góðu samstarfi. Bankinn leggur þar einnig aukna áherslu á framsækni og arðbæran vöxt. Þá tilkynnti bankinn um samstarf við VÍS þar sem bæði félög munu bjóða viðskiptavinum sínum sérstakan ávinning í gegnum vildarkerfi sín. Með þessu er hægt að bjóða enn betri þjónustu og kjör samhliða betri yfirsýn yfir fjármálin.
Greining Íslandsbanka kynnti á dögunum nýja þjóðhagsspá. Samkvæmt henni má vænta áframhaldandi hjöðnunar verðbólgu og frekari lækkunar stýrivaxta Seðlabanka Íslands. Þar með má segja að hagkerfið sé að ná vissu jafnvægi og væntingar eru því um aukin vöxt efnahagslífsins. Samhliða nýrri spá héldum við fund um innviði í heilbrigðisþjónustu en bankinn hefur undanfarin misseri bent á uppsafnaða þörf á fjárfestingum í margvíslegum innviðum á Íslandi. Bankinn er vakandi fyrir tækifærum á því sviði og hefur ýtt undir samtal milli einkaaðila og opinberra í þeim efnum. Þá eykur þátttaka bankans í slíkum verkefnum erlendis enn frekar við reynslu okkar og eflir samstarf við erlenda aðila.
Sjálfbærni er fyrir löngu orðin hluti af daglegum rekstri bankans og mikilvægt að áfram sé unnið að metnaðarfullum markmiðum á því sviði. Í nýútgefinni Árs- og sjálfbærniskýrslu okkar fyrir árið 2024, sem aðgengileg er á vef bankans, er greint frá helstu áföngum sem bankinn náði á árinu, bæði á sviði sjálfbærni en einnig í rekstri viðskiptaeininga og innan stoðsviða. Meðal ánægjulegra tækninýjunga má nefna að upplýsingar um sparnað í Fríðu, fríðindakerfi bankans, uppfærist nú í rauntíma fyrir debetkort og nýjum netbanka, verður hleypt af stokkunum á fyrsta ársfjórðungi 2025 eftir miklar breytingar á þessari mikilvægu dreifileið bankans undanfarið. Það er gaman að sjá hvað sterk liðsheild skilar góðum árangri við þróun nýrra lausna.
Fram undan eru spennandi tímar við innleiðingu nýrrar stefnu þar sem markmiðið er að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu og vera hreyfiafl til góðra verka. Áfram er mikil áhersla á að efla fjárhaglega heilsu og mun bankinn halda áfram öflugu fræðslustarfi. Samstarf Íslandsbanka og VÍS opnar á ný tækifæri í þjónustu við okkar viðskiptavini og við hlökkum til að móta það samstarf og kynna það nánar á komandi vikum og mánuðum.
Afkomuefni
Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu Íslandsbanka má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar sem finna má í viðhengi (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, fjárfestafund og fjárhagsdagatal). Sé misræmi á milli tilkynninga á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, gildir enska útgáfan.
Fyrirvari
Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er á ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.
FJÁRFESTATENGSL
Vefstreymi föstudaginn 14. febrúar 2025
Íslandsbanki mun halda afkomufund/vefstreymi föstudaginn 14. febrúar 2025 kl. 8.30 fyrir fjárfesta og markaðsaðila. Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri og Ellert Hlöðversson, fjármálastjóri munu kynna afkomu bankans og helstu atriði í rekstri hans á fjórða ársfjórðungi og árinu 2024. Fundurinn fer fram á ensku.
Fundurinn verður aðgengilegur í gegnum hlekk á vefsvæði fjárfestatengsla á vef bankans. Upptaka af fundinum verður aðgengileg á sama stað að honum loknum. Þátttaka, og möguleikinn á að bera fram skriflegar spurningar, fer fram á þessari síðu. Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn og lagt fram spurningar munnlega með því að skrá sig á þessari síðu. Að skráningu lokinni færðu afhent símanúmer og auðkenni fyrir fundinn. Allar upplýsingar um fundinn má finna hér.
Nánari upplýsingar veita fjárfestatengsl Íslandsbanka í gegnum netfangið ir@islandsbanki.is.
Fjárhagsdagatal
Stefnt er birtingu árshluta- og ársuppgjörs á eftirfarandi dagsetningum:
Aðalfundur – 31. mars 2025
Árshlutauppgjör fyrsta ársfjórðungs 2025 – 8. maí 2025
Árshlutauppgjör annars ársfjórðungs 2025 – 31. júlí 2025
Árshlutauppgjör þriðja ársfjórðungs 2025 – 30. október 2025
Frekari upplýsingar um fjárhagsdagatal Íslandsbanka fyrir árið 2025 eru aðgengilegar á vef bankans. Dagsetningar eru birtar með fyrirvara um breytingar.
Fjárfestaefni
Allt fjárfestaefni mun verða birt á vefsvæði fjárfestatengsla þar sem upplýsingar um fjárhagsdagatal og þögul tímabil eru einnig aðgengilegar.
Þessi tilkynning er birt af Íslandsbanka hf. og inniheldur upplýsingar sem töldust eða kunna að hafa talist innherjaupplýsingar í skilningi 7. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og Ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR), sbr. lög nr. 60/2021, um aðgerðir gegn markaðssvikum, varðandi afkomu á fjórða ársfjórðungi 2024 og á árinu 2024 sem lýst er að ofan. Tilkynning þessi er gerð af Ellerti Hlöðverssyni, fjármálastjóra Íslandsbanka hf., í samræmi við upplýsingaskyldu bankans samkvæmt MAR og 2. gr. framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EU) 2016/1055.