Prenumeration
Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Large Cap Iceland |
Sektor | Finans |
Industri | Storbank |
Stjórnir Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki) og Skaga hf. (Skagi) hafa samþykkt að hefja formlegar samrunaviðræður milli félaganna og hefur skilmálaskjal þess efnis verið undirritað af hálfu beggja aðila.
Lagt er upp með að starfsemi Skaga verði sameinuð Íslandsbanka og að hluthafar Skaga eignist samtals 323.859.440 nýja hluti í Íslandsbanka í skiptum fyrir hlutabréf sín í Skaga, eða sem svarar til um 15% útgefins hlutafjár í sameinuðu félagi. Bankastjóri hins sameinaða félags verður Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka.
Samrunaaðilar sjá fjölmörg tækifæri í sameiningu félaganna. Báðir aðilar hafa lýst vilja sínum til ytri vaxtar og telja að ýmis tækifæri felist í samþættingu á fjármálamarkaði, sem geti skapað veruleg verðmæti fyrir sameinað félag, viðskiptavini þess og aðra hagsmunaaðila. Til staðar eru mörg tækifæri í aukinni samþættingu bankaþjónustu til einstaklinga og fyrirtækja við tryggingastarfsemi, með það að leiðarljósi að auka gæði og hagkvæmni í þjónustu. Þá búa bæði félög yfir öflugri eignastýringu, sem myndar grunn að áframhaldandi sókn á þeim markaði. Til viðbótar telur bankinn að með samruna við Skaga styrkist enn frekar leiðandi staða Íslandsbanka í fjárfestingarbankastarfsemi. Þá er ávinningur talinn felast í samlegð af samrunanum, en bein árleg samlegð er metin á bilinu 1,8-2,4 milljarðar króna.
Að mati stjórnar Íslandsbanka er um að ræða hagfelld viðskipti fyrir hluthafa Íslandsbanka og er í samræmi við stefnu bankans um arðbæran vöxt. Með þeim eykst fjölbreytni í tekjumyndun bankans og vægi þóknanatekna eykst. Til viðbótar er gert ráð fyrir að fyrirhugaðar breytingar á eiginfjárkröfum fjármálafyrirtækja með innleiðingu CRR3 muni leiða til hagkvæmari nýtingar eigin fjár. Samanlagt er það því mat Íslandsbanka að sameiningin muni renna frekari stoðum undir aukna arðsemi sameinaðs félags. Þá mun sameinað félag áfram búa yfir verulegu umfram eigin fé sem skapar frekari tækifæri til vaxtar.
Lagt er upp með að viðræður fari fram á næstu vikum og munu aðilar upplýsa um framvindu þeirra í samræmi við lögbundna upplýsingaskyldu félaganna.
Þessi tilkynning er birt af Íslandsbanka hf. og inniheldur upplýsingar sem töldust eða kunna að hafa talist innherjaupplýsingar í skilningi 7. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og Ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR), sbr. lög nr. 60/2021, um aðgerðir gegn markaðssvikum, varðandi samrunaviðræður sem lýst er að ofan. Tilkynning þessi er gerð af Ellerti Hlöðverssyni, fjármálastjóra Íslandsbanka hf., í samræmi við upplýsingaskyldu bankans samkvæmt MAR og 2. gr. framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EU) 2016/1055.