Bifogade filer
Prenumeration
Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Large Cap Iceland |
Sektor | Finans |
Industri | Storbank |
Vísað er til fyrri tilkynninga Íslandsbanka hf. (hér eftir bankinn) um framkvæmd endurkaupaáætlunar á eigin bréfum að fjárhæð 10 milljarðar króna, sem tilkynnt var um 14. júní 2024 og hófst 18. júní 2024. Tilkynnt var um lok þeirrar umferðar 29. ágúst 2024. Þá er vísað til tilkynningar bankans dags. 1. nóvember 2024 um frekari framkvæmd endurkaupa en þeirri umferð lauk 22. nóvember 2024, til tilkynningar bankans dags. 22. nóvember 2024 um frekari framkvæmd endurkaupa, sem lauk 17. desember 2024 og til tilkynningar dags. 17. desember 2024 um frekari framkvæmd endurkaupa sem lauk 22. janúar 2025. Loks er vísað til tilkynningar bankans dags. 22. janúar 2025 um frekari framkvæmd endurkaupa en þeirri umferð lauk 19. febrúar 2025. Bankinn hyggst nú halda áfram framkvæmd framangreindrar endurkaupaáætlunar í þeim tilgangi að lækka útgefið hlutafé bankans.
Samþykkt og útgefið hlutafé bankans nemur 2.000 milljónum almennra hluta, þar sem hver hlutur er jafnvirði fimm króna. Við dagsetningu tilkynningar þessarar á bankinn 119.529.230 eigin hluti og hefur bankinn keypt eigin hluti samkvæmt framangreindri endurkaupaáætlun sinni að fjárhæð kr. 8.198.899.914.
Að þessu sinni er áætlað að kaupa, allt að 10.000.000 hluti sem jafngildir 0,50% af útgefnu hlutafé bankans, þó þannig að heildarfjárhæð endurkaupanna að þessu sinni verði aldrei meiri en samtals kr. 1.000.000.000. Endurkaupin hefjast þann 4. mars 2025 og munu standa yfir þar til öðru hvoru framangreindra viðmiða um magn eða fjárhæð er náð, en þó aldrei lengur en til 26. mars 2025.
Verð fyrir hvern keyptan hlut skal að hámarki vera hæsta verð í síðustu óháðu viðskiptum eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Kaup hvers dags munu að hámarki nema 25% af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf í bankanum á skipulegum markaði Nasdaq Iceland í febrúarmánuði 2025.
Endurkaupin verða framkvæmd af Arctica Finance hf. sem tekur ákvarðanir um kaup á hlutafé fyrir hönd bankans og tímasetningu viðskipta óháð Íslandsbanka.
Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar verður í samræmi við viðeigandi lög og reglur, þ.á m. lög um hlutafélög nr. 2/1995, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um markaðssvik nr. 596/2014 og framselda reglugerð Framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 2016/1052, lög um aðgerðir gegn markaðssvikum nr. 60/2021 og reglur nr. 1275/2024 um sama efni. Samþykki fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna kaupa bankans á eigin hlutum er fyrirliggjandi.
Viðskipti með hluti í samræmi við endurkaupaáætlunina verða tilkynnt í síðasta lagi í lok sjöunda viðskiptadags eftir að viðskiptin fara fram.
Þessi tilkynning er birt af Íslandsbanka hf. og inniheldur upplýsingar sem töldust eða kunna að hafa talist innherjaupplýsingar í skilningi 7. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og Ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR), sbr. lög nr. 60/2021, um aðgerðir gegn markaðssvikum, varðandi endurkaupaáætlunina sem lýst er að ofan. Tilkynning þessi er gerð af Ellerti Hlöðverssyni, fjármálastjóra Íslandsbanka hf., í samræmi við upplýsingaskyldu bankans samkvæmt MAR og 2. gr. framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EU) 2016/1055.