Torsdag 1 Januari | 02:37:46 Europe / Stockholm
2025-12-31 22:30:00
  • 100 milljón dollara lánsfjármögnun til tveggja ára
  • Styrkir lausafjárstöðu og styður við áframhaldandi vöruþróun og markaðssókn út árið 2026
  • Fjármögnunin var leidd af GoldenTree Asset Management

REYKJAVÍK (31. DESEMBER 2025) - Alvotech (NASDAQ: ALVO, ALVO SDB) tilkynnti í dag að fyrirtækið hafi tryggt lánsfjármögnun að fjárhæð 100 milljónir bandaríkjadollara til tveggja ára. Fjármögnunin mun styrkja lausafjárstöðu félagsins og styðja við stefnumarkandi verkefni á árinu 2026 og áframhaldandi fjárfestingu í þróun nýrra hliðstæðna líftæknilyfja.

„Þessi fjármögnun undirstrikar það traust sem alþjóðlegir fjárfestar hafa á stefnu og framtíðarsýn félagsins,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech. „Fjármögnunin styrkir getu okkar til áframhaldandi vaxtar og fjárfestingar í nýsköpun. Þannig höldum við áfram að auka aðgengi sjúklinga um allan heim að hágæða líftæknilyfjum.“

Fjármögnunin var leidd af GoldenTree Asset Management fyrir hönd fjárfesta sem deila sýn félagsins um vöxt á næstu árum samhliða markaðssetningu á fjölbreyttara úrvali lyfja, öflugri sókn á alþjóðlega markaði og áframhaldandi þróun á nýjum líftæknilyfjahliðstæðum.

Alvotech er nú að þróa 30 hliðstæður líftæknilyfja sem er eitt verðmætasta safn hliðstæðna í lyfjaiðnaðinum. Þá er félagið að auka framleiðslugetu sína þar sem 4 nýjar hliðstæður eru á leið á markað.

Fjármögnunin er að fjárhæð 100 milljónir bandaríkjadollara til tveggja ára og ber lánið 12,5% vexti sem eru greiddir mánaðarlega. Lánið kemur í stað 100 milljón dollara veltufjármögnunar (ABL) sem áður hafði verið upplýst um og veitir þessi fjármögnun félaginu aukinn sveigjanleika.

GoldenTree Asset Management leiddi í júní 2024 lánveitingu til Alvotech með lokagjalddaga í júní 2029. Ári síðar lækkuðu þessir vextir í 6,0% álag ofan á SOFR-millibankavexti, sem samsvarar um 9,8% vöxtum byggt á 30 daga meðaltali á SOFR-millibankavöxtum sem eru um 3,8%. Til að styrkja enn frekar fjárhagsstöðu félagsins, var einnig nýlega tilkynnt um útgáfu breytanlegra skuldabréfa að upphæð 108 milljón dollara með gjalddaga á árinu 2030. Með þessu er félagið vel í stakk búið til að viðhalda leiðandi stöðu sinni á markaði og styðja við áframhaldandi fjárfestingu í þróun á líftæknilyfjahliðstæðum.

Frekari upplýsingar:
Benedikt Stefánsson, forstöðumaður
alvotech.ir@alvotech.com

Um Alvotech
Alvotech er líftæknifyrirtæki stofnað af Róberti Wessman sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þróunar- og framleiðsluþættir í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu og krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.

Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðu Alvotech, á fjárfestasíðu okkar og á almennri vefsíðu félagsins á ensku. Fylgjast má með starfsemi Alvotech á LinkedInFacebookInstagram og YouTube.