Tisdag 6 Maj | 13:41:20 Europe / Stockholm

Beskrivning

LandIsland
ListaSmall Cap Iceland
SektorTjänster
IndustriFordon & Transport
Fly Play bedriver flygverksamhet. Bolaget erbjuder ett brett utbud av resmål runt om världens kontinenter. Störst verksamhet återfinns inom Island och Europa. Visionen är att vara en långsiktig och hållbar aktör på flygmarknaden genom att erbjuda ett brett utbud av resor. Kunderna består av både privata aktörer samt små- och medelstora företagskunder.
2025-02-07 17:00:00


Flugfélagið PLAY flutti 87.415 farþega í janúar, samanborið við 99.704 farþega í janúar í fyrra. Þetta endurspeglar 11% mun á framboði á milli ára sem er bein afleiðing af ákvörðun PLAY að leigja eina af farþegaþotum sínum til GlobalX í Miami og aðlaga framboðið eftir árstíðarbundnum sveiflum.

Sætanýting PLAY í janúar var 72,9%, samanborið við 74,8% í janúar í fyrra. PLAY hefur lagt aukna áherslu á aukið framboð til sólarlandaáfangastaða í Suður-Evrópu. Hlutur sólarlandaáfangastaða í leiðakerfi PLAY jókst um 5 prósentustig, úr 21% í 26%, á milli ára í janúar. Sólarlandaáfangastaðirnir gefa af sér betri afkomu, en þar sem um er að ræða beint flug frá Íslandi þar sem tengifarþegar eru ekki fyrir hendi, kemur það jafnan niður á sætanýtingu.

Þessi breyting hefur haft jákvæð áhrif á einingatekjur félagsins sem hafa aukist á milli ára. Með því að stýra framboði eftir árstíðarbundnum sveiflum og auka framboð á flugleiðum sem gefa af sér betri afkomu, hefur tekist að bæta fjárhagslega niðurstöðu.

Janúar var fimmti mánuðurinn í röð þar sem vöxtur hefur orðið á einingatekjum á milli ára og líkt og áður hefur komið fram eru horfur á að sú þróun haldi áfram árið 2025.

Fleiri Íslendingar ferðast með PLAY

Af þeim farþegum sem flugu með PLAY í janúar voru 32,2% á leið frá Íslandi, 37,6% voru á leið til Íslands og 30,1% voru tengifarþegar (VIA). Þrátt fyrir minna framboð varð aukning á milli ára á farþegum sem voru á leið frá Íslandi, úr 27 þúsund í janúar í fyrra í 28 þúsund í janúar í ár. Sömu sögu er að segja af ferðamönnum sem flugu með PLAY til að heimsækja Ísland, en tala þeirra fór úr 31 þúsund í janúar í fyrra í 33 þúsund í janúar í ár.

Stundvísi PLAY í janúar var 79,2%, samanborið við 78,1% í janúar í fyrra, en janúarmánuður er jafnan krefjandi í flugrekstri á Íslandi vegna veðurs.

Áfangastaðir í Bandaríkjunum og Evrópu

PLAY hefur sett áætlun í sölu fram til ársins 2026 til vinsælla áfangastaða í Bandaríkjunum og Evrópu. Í Bandaríkjunum mun PLAY halda úti áætlunarflugi til Boston, Baltimore og Washington DC um BWI-flugvöll ásamt New York, og munu þessar borgir áfram tengjast við lykilborgir í Evrópu. 

Á meðal vinsælla sólarlandaáfangastaða í Evrópu eru Tenerife, Las Palmas, Alicante, Lissabon, Malaga, Madeira og nýjasti áfangastaðurinn í leiðakerfi PLAY, Antalya í Tyrklandi. Þeir sem hafa hug á borgarferðum geta fundið flug til Kaupmannahafnar, Barcelona, Madríd, Lundúna, Liverpool, Amsterdam, Parísar og Dublin. 

Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY:

„Það er ánægjulegt að sjá Íslendingum fjölga sem fljúga með PLAY og það gefur sannarlega til kynna að við séum fyrsta val þeirra þegar bóka á ferð til sólarlanda. Þá er einnig gott að sjá þeim fjölga sem velja PLAY til að heimsækja Ísland, sem er jákvætt merki þess að PLAY sé að ná til fólks á erlendum mörkuðum.

Ég er afskaplega stoltur af samstarfsfólki mínu hjá PLAY að ná að bæta stundvísina á milli ára í janúar. Þessir vetrarmánuðir geta verið ansi krefjandi í flugrekstri hér á landi, en hjá PLAY starfar fólk sem er staðráðið í að halda góðri stundvísi og forgangsraðar ávallt öryggi sem skilar sér í ánægju farþega og lægri kostnaði.

Við höldum áfram á þeirri vegferð að bjóða frábæra þjónustu á góðu verði, sem gerir PLAY að frábærum valkosti fyrir þá sem vilja komast til sólarlanda, heimsækja Ísland eða fljúga á milli Bandaríkjanna og Evrópu.“