Bifogade filer
Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Mid Cap Iceland |
Sektor | Handel & varor |
Industri | Detaljhandel |
Sterkt rekstrarár og kjarnastarfsemi útvíkkuð til Færeyja
Stjórnendauppgjör Haga fyrir rekstrarárið 2024/25 hefur verið yfirfarið af stjórn félagsins. Í því er m.a. að finna helstu upplýsingar um rekstur, efnahag og sjóðstreymi samstæðunnar. Stjórnendauppgjörið er ekki endurskoðað af endurskoðendum samstæðunnar og inniheldur ekki ófjárhagslegar upplýsingar. Endurskoðaður ársreikningur, ásamt ófjárhagslegum upplýsingum, verður birtur þann 30. apríl nk. og kann uppgjörið því að taka breytingum fram að þeim tíma. Gerð verður grein fyrir frávikum, ef einhver eru, við birtingu ársreiknings. Í aðdraganda ársuppgjörs var tekin ákvörðun um breytta reikningsskilaaðferð vegna fjárfestingarfasteigna félagsins, en þær eru nú metnar til gangvirðis en voru áður færðar á afskrifuðu kostnaðarverði. Vegna þessa hefur samanburðarfjárhæðum í efnahag fyrra árs verið breytt.
Helstu lykiltölur
- Vörusala 4F nam 46.037 m.kr. (7,6% vöxtur frá 4F 2023/24). Vörusala 12M nam 180.342 m.kr. (4,1% vöxtur frá 12M 2023/24). [4F 2023/24: 42.788 m.kr., 12M 2023/24: 173.270 m.kr.]
- Framlegð 4F nam 11.508 m.kr. (25,0%) og 41.104 m.kr. (22,8%) fyrir 12M. [4F 2023/24: 8.952 m.kr. (20,9%), 12M 2023/24: 35.989 m.kr. (20,8%)]
- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 4F nam 3.857 m.kr. eða 8,4% af veltu. EBITDA 12M nam 14.738 m.kr. eða 8,2% af veltu. [4F 2023/24: 2.840 m.kr. (6,6%), 12M 2023/24: 13.063 m.kr. (7,5%)]
- Hagnaður 4F nam 3.066 m.kr. eða 6,7% af veltu. Hagnaður 12M nam 7.030 m.kr. eða 3,9% af veltu. [4F 2023/24: 1.191 m.kr. (2,8%), 12M 2023/24: 5.044 m.kr. (2,9%)]
- Heildarafkoma 12M nam 10.699 m.kr., en endurmat vegna fasteigna, fært á eigið fé, nam 3.677 m.kr. og neikvæður þýðingarmunur var 8 m.kr. [12M 2023/24: 5.044 m.kr.]
- Grunnhagnaður á hlut 4F var 2,81 kr. og 6,47 kr. fyrir 12M. [4F 2023/24: 1,09 kr., 12M 2023/24: 4,59 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 4F var 2,71 kr. og 6,30 kr. fyrir 12M. [4F 2023/24: 1,08 kr., 12M 2023/24: 4,51 kr.]
- Eigið fé nam 38.489 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 36,6%. [Árslok 2023/24: 28.954 m.kr. og 37,0%]
- Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2024/25 gerði ráð fyrir að EBITDA yrði á bilinu 14.000-14.500 m.kr.
Helstu fréttir af starfsemi
- Fjórði ársfjórðungur gekk vel en bætt afkoma er að mestu til komin vegna áhrifa af rekstri SMS, sem varð hluti af samstæðu Haga frá upphafi ársfjórðungs, auk þess sem afkoma Olís styrkist milli ára.
- Í lok árs tók stjórn Haga ákvörðun um breytingu á reikningshaldslegri meðferð fjárfestingarfasteigna og eru þær nú í fyrsta sinn færðar til gangvirðis í reikningsskilum samstæðunnar. Það er mat stjórnenda að endurmetið verð þessara fasteigna gefi nú gleggri mynd af fjárhagsstöðu samstæðunnar í árslok en afskrifað kostnaðarverð hefði gert.
- Heildaráhrif breyttrar reikningsskilaðferðar námu 6.595 m.kr. á efnahagsreikning samstæðunnar, þar af voru 957 m.kr. færðar á samanburðarári - áhrif matsbreytinga á rekstur námu 1.042 m.kr. en stærstur hluti hennar er vegna einskiptisáhrifa hjá SMS.
- Á 4F fjölgaði heimsóknum viðskiptavina í dagvöruverslunum (á Íslandi) um 0,5% milli ára á meðan seldum stykkjum fækkaði um 2,6%, að mestu leyti vegna breyttrar samsetningar vörukörfu. Seldum eldsneytislítrum fækkaði um 11,4% á fjórðungnum en samdrátturinn tengist aðallega minni umsvifum hjá stórnotendum.
- Uppsafnaður 12 mánaða hagnaður á hlut var 6,47 kr. og jókst um 41% á árinu (5,56 kr. og 21% án einskiptisliða vegna SMS).
- Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2025/26 gerir ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 16.000-16.500 m.kr.
Finnur Oddsson, forstjóri:
Starfsemi Haga á síðasta ársfjórðungi rekstrarársins 2024/25 gekk vel og var afkoma umfram áætlanir. Rekstur P/F SMS í Færeyjum litar uppgjör á fjórðungnum, en félagið varð hluti af samstæðu Haga þann 2. desember 2024. Vörusala nam alls 46.037 m.kr., sem er 7,6% aukning frá sama tímabili árið áður, en ef litið er fram hjá áhrifum af kaupum á SMS var sala svipuð á milli ára. Framlegð í krónum jókst um 28,6%, nam 11.508 m.kr. og styrkist einnig sem hlutfall af tekjum. EBITDA var 3.857 m.kr. og hagnaður 3.066 m.kr. Góða afkomu á fjórðungnum má m.a. rekja til bætts rekstrar stærstu fyrirtækja Haga, innkomu SMS í samstæðu, matsbreytinga á fjárfestingarfasteignum og góðrar afkomu hlutdeildarfélaga.
Fjórðungurinn rekur smiðshögg á gott og jafnframt viðburðarríkt rekstrarár samstæðu Haga. Vörusala ársins nam 180.342 m.kr. og jókst um 4,1% frá fyrra ári. EBITDA ársins nam 14.738 m.kr., eða 8,2% af veltu, og hagnaður ársins nam 7.030 m.kr., þar sem áhrif matsbreytinga nema 1.042 m.kr. til hækkunar. Við erum sátt með rekstur Haga á árinu, en árangurinn er til vitnis um að aðgerðir sem við höfum ráðist í á undanförnum árum til að treysta undirstöður og auka skilvirkni hafa borið árangur. Á sama tíma höfum við stigið fyrstu skref í þeirri stefnu að víkka út tekjugrunn félagsins og leita nýrra leiða til arðbærs vaxtar, m.a. með kaupum á SMS í Færeyjum í desember síðastliðnum.
Við kaup á SMS er nýrri stoð í tengdri starfsemi skotið undir annars traustan rekstur Haga. SMS rekur m.a. verslanir undir merkjum Bónus, Miklagarður og Mylnan, veitingastaði á borð við Burger King, Sunset Boulevard og Angus Steakhouse, auk sérvöruverslana, kjötvinnslu, verksmiðjubakarís og verslunarmiðstöðvar. Með auknum umsvifum tengdum kjarnastarfsemi Haga skapast tækifæri til að efla starfsemi, m.a. tengt hagræði í rekstrarkostnaði, fjármögnun og samnýtingu innkaupa sem stuðlar að bættu vöruframboði, innkaupsverðum og upplifun viðskiptavina í verslunum. Gert er ráð fyrir að nokkur fjárfesting verði í starfsemi SMS í Færeyjum á næstu misserum, í samræmi við almennan uppgang efnahagslífs þar og þróun þéttbýlis í kringum Þórshöfn. Meðal annars er gert ráð fyrir að nýr verslunarkjarni SMS opni í Rúnavík á haustmánuðum. Við gerum grein fyrir rekstri SMS í nýjum starfsþætti fyrir samstæðuna, Verslanir og vöruhús – Færeyjar, en tekjur á fjórðungnum námu 3.467 m.kr. og afkoma með ágætum.
Tekjur í rekstri Verslana og vöruhúsa á Íslandi á fjórða ársfjórðungi voru 32,8 ma. kr. og jukust um tæplega 3% frá sama tímabili á fyrra ári. Heimsóknum í verslanir fjölgaði en seldum stykkjum fækkaði, en eins og á þriðja ársfjórðungi þá leikur breytt samsetning vörukörfu og aukin áhersla Bónus á stærri og hagkvæmari sölueiningar hlutverk hér og gerir samanburð á seldum stykkjum á milli tímabila erfiðari. Hjá Bónus er sem fyrr lögð sérstök áhersla á skilvirkni og árangur í innkaupum til að tryggja viðskiptavinum sem hagkvæmust kaup á dagvöru. Til marks um árangur af þessari vinnu þá hefur Bónus tekist að lækka verð á meira en 500 vörum m.v. í fyrra og býður viðskiptavinum upp á sérstök „ódýrast vikunnar“ tilboð, hagkvæmari pakkningar og ódýrar staðkvæmdarvörur. Þá er barnafjölskyldum auðvelduð verslun með nýjum þægindum eins og barnakerrum, hollu góðgæti, bættu vöruúrvali og skemmtun fyrir yngri kynslóðina. Bónus styður svo sérstaklega við bakið á barnafjölskyldum með því að færa nýbökuðum foreldrum barnabox, svokallaðan Barnabónus, sem í eru nauðsynjar fyrir nýbura á fyrstu vikunum, sem léttir undir fjárhag og stuðlar að jöfnum tækifærum óháð efnahag.
Verslun í Hagkaup var að venju lífleg yfir hátíðirnar og gekk vel á fjórðungnum. Auknu úrvali af tilbúnum réttum, grænmeti, ávöxtum, kjöti og fiskvörum hefur verið afar vel tekið af viðskiptavinum og netverslun með sérvöru og veislurétti heldur áfram að aukast. Build-A-Bear bangsaverksmiðja Hagkaups opnaði 1. febrúar við frábærar undirtektir barna, foreldra, afa og ömmu. Starfsemi annara eininga gekk almennt vel. Veigum hefur verið tekið opnum örmum, m.a. fyrir þægilegan afhendingarmáta áfengis í netverslun og stígandi hefur verið í sölu frá opnun. Eldum rétt hefur fest sig rækilega í sessi sem þægileg og einföld lausn fyrir annasamar fjölskyldur, en til viðbótar við matarpakka er viðskiptavinum nú boðið upp á viðbótarvörur til eldhússins sem berast með heimsendingu og spara bæði tíma og verslunarleiðangra. Fjárfesting í innviðum hjá Aðföngum og Banönum hefur skilað sér í aukinni skilvirkni rekstrar, Stórkaup er áfram í vaxtarham og Zara var sem fyrr vinsæll áfangastaður fyrir fatakaup, sérstaklega fyrir hátíðirnar.
Tekjur Olís námu 10 ma. kr. á fjórðungnum og drógust saman um 9% á milli ára. Afkoma styrktist mikið á milli fjórðunga og var töluvert umfram áætlanir. Samdrátt í tekjum má aðallega rekja til lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu miðað við árið í fyrra en einnig fækkaði seldum lítrum til stórnotenda á tímabilinu, þar sem mestu munar um samdrátt í þotueldsneyti. Sala eldsneytis á smásölumarkaði var svipuð á milli ára en viðskiptavinir hafa tekið vel í aukið þjónustuframboð og bætta ásýnd stöðva. Þetta sést m.a. af áframhaldandi aukningu í sölu á þurrvöru og skemmtilegum skyndibitum frá Grill 66 og Lemon Mini, bæði á þjónustustöðvum og í samstarfi við sendingarþjónustur. Þróun nýrrar þjónustu, sjálfsafgreiðslu, raforkulausna og afhendingu pakkasendinga hefur haldið áfram og mun styrkja Olís enn frekar sem fjölbreyttan og nútímalegan þjónustuaðila. Nýtt Olís/ÓB app og stafrænn dælulykill léttir viðskiptavinum nú lífið og veitir aðgang að góðum tilboðum og fyrstu bílarnir voru þvegnir á Glans á Olís í Mosfellsbæ á fjórðungnum. Nýliðið rekstrarár Olís var sérlega sterkt í sögulega samhengi.
Starfsemi Klasa fasteignaþróunarfélags, þar sem Hagar eiga 1/3 hlut, gekk vel á árinu. Góður framgangur var í þróun eftirsóknarverðra byggingarreita fyrir íbúðir og framkvæmdir voru hafnar við uppbyggingu glæsilegs skrifstofuhúsnæðis við Silfursmára. Þróunarverkefni á vegum Klasa fela í sér byggingarmagn upp á ríflega 300.000 m2, að mestu ætlað fyrir íbúðabyggð. Eins og undanfarin ár þá skilaði eignarhlutur Haga í Klasa góðri ávöxtun og er gert ráð fyrir að svo verði einnig á næstu árum.
Fasteignir og tengd verkefni hafa fengið stöðugt meira vægi í rekstri og afkomu Haga á síðustu misserum. Við lok árs telja fasteignir í eigu Haga ríflega 60.000 m2, en með SMS bættust um 11.000 m2 við safnið. Eignir í safninu eru tengdar verslun og þjónustu, vel staðsettar og að mestu nýttar undir eigin starfsemi Haga en einnig leigðar til þriðja aðila. Í ljósi vægis fasteigna í starfsemi og afkomu Haga hefur reikningsskilaaðferð verið breytt til að endurspegla betur fjárhags- og eignastöðu félagsins. Fjárfestingarfasteignir sem áður voru færðar á afskrifuðu kostnaðarverði munu hér eftir færðar til gangvirðis. Uppfærslan tekur til um 2/3 af fasteignum Haga og hefur áhrif á efnahag og að hluta til á rekstur. Áhrif á rekstur eru einungis vegna eigna sem eru í útleigu utan samstæðu Haga.
Við erum ánægð með rekstur og þróun samstæðu Haga á síðasta ári. Þar horfum við annars vegar til áframhaldandi styrkingar reksturs og hins vegar til uppbyggingar á nýjum tekjustoðum í samræmi við breyttar stefnuáherslur félagsins sem kynntar voru í byrjun ársins. Arðsemi eiginfjár er og hefur verið vel yfir markmiðum stjórnar og uppsafnaður hagnaður á hlut, án einskiptisáhrifa frá SMS, hefur aukist um 21% á síðustu 12 mánuðum og nánast þrefaldast á fjórum árum. Tengt þessu finnum við fyrir auknum áhuga fjárfesta á félaginu, en verð hlutabréfa, leiðrétt fyrir arðgreiðslu, hækkaði um 38% á rekstrarárinu.
Grundvöllur árangurs í rekstri er að þjónusta uppfylli þarfir viðskiptavina og þróist með þeim. Með þetta að leiðarljósi höfum við bætt þjónustu og vöruframboð í öllum helstu rekstrareiningum, með það að markmiði að gera verslun bæði þægilega og skemmtilega, en umfram allt sem hagkvæmasta fyrir okkar viðskiptavini. Undanfarin misseri höfum við beitt okkur sérstaklega gegn hækkunum á aðföngum til dagvöruverslunar og þannig lagt okkar af mörkum til hjöðnunar á verðbólgu öllum til hags. Þó ákveðnar blikur séu á lofti í þróun alþjóðaviðskipta þá treystum við sem fyrr á gott samstarf við birgja að gæta hófs í verðhækkunum og að stjórnvöld skapi aðstæður fyrir stöðugleika og jafnvel lækkun verðlags á dagvöru.
Staða Haga er í dag traust enda samanstendur samstæða félagsins af fjölbreyttum rekstrareiningum sem skila sterkri afkomu og búa að fjölmörgum vaxtatækifærum. Fjárhagur er sterkur og við höfum burði, reynslu og metnað til að fylgja eftir nýjum stefnuáherslum í þágu viðskiptavina, starfsfólks og hluthafa félagsins.
Afkomuspá fyrir rekstrarárið 2025/26 gerir ráð fyrir því að EBITDA samstæðunnar verði á bilinu 16.000-16.500 m.kr.
Rafrænn kynningarfundur miðvikudaginn 16. apríl 2025
Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn miðvikudaginn 16. apríl kl. 08:30, þar sem Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum.
Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á meðan útsendingu stendur á netfangið fjarfestakynning@hagar.is og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar.
Fundinum verður streymt og er skráning á streymið hér: https://www.hagar.is/skraning
Kynningargögn verða aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.
Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is), og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.