Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Mid Cap Iceland |
Sektor | Industri |
Industri | Industriprodukter |
Í áætlun sem kynnt var samhliða hlutafjárútboði Hampiðjunnar í maí 2023 kom fram að áætluð EBITDA samstæðu félagsins yrði á bilinu 43 til 49 m EUR á árinu 2023. Á vettvangi félagsins er nú unnið að uppgjöri fjórða ársfjórðungs 2023 og gerð ársreiknings. Drög að uppgjörinu liggja nú fyrir og samkvæmt þeim mun EBITDA, leiðrétt fyrir einskiptisliðum tengdum töku til viðskipta á Aðalmarkaði og kaupum á Mørenot nema rúmum 40 m EUR og er því undir þeim mörkum sem áætlun gerði ráð fyrir.
Niðurstaðan hefur ekki áhrif á birta langtímaáætlun félagsins fyrir árið 2027 sem einnig var kynnt fjárfestum í maí um EBITDA á bilinu 69-77 m EUR.
Félagið áætlar nú að EBITDA í ársreikningi félagsins fyrir árið 2023 nemi um 37 m EUR og einskiptiskostnaður tengdur kaupum á Mørenot og skráningu á aðalmarkað ásamt endurskipurlagningarkostnaði í Mørenot nemi rúmum 3 m EUR.
Drög að uppgjöri benda til að velta samstæðu Hampiðjunnar hafi numið rúmum 320 m EUR á árinu 2023 og er það innan þeirra áætluðu marka sem voru kynnt samhliða hlutafjárútboði félagins í maí.
Mørenot kom inn í samstæðu Hampiðjunnar frá 1. febrúar 2023 og hefði félagið verið hluti af samstæðu Hampiðjunnar allt árið hefði velta samstæðunnar numið um 330 m EUR og leiðrétt EBITDA numið um 41 m EUR.
Rekstur félagsins gekk almennt vel á árinu 2023 og samkvæmt drögum að ársuppgjöri jókst velta þeirra fyrirtækja sem voru innan samstæðu Hampiðjunnar fyrir kaupin á Mørenot um 11 m EUR á milli ára og nam um 205 m EUR sem samsvarar um 6% söluaukningu. Leiðrétt EBITDA þeirra félaga, vegna einskiptiskostnaðar í tengslum við kaup á Mørenot og skráningu á aðalmarkað, jókst einnig á árinu og nam um 30 m EUR eða um 15% sem hlutfall af tekjum.
Rekstur Mørenot samstæðunnar gekk vel á fyrstu þremur ársfjórðungum 2023 en á síðasta ársfjórðungi ársins komu inn neikvæðir þættir, einkum frá dótturfélagi félagsins Mørenot Aquaculture, sem er þjónustufyrirtæki við fiskeldisiðnað. Þá þætti sem eru þessu valdandi má meðal annars rekja til veðurfars í Noregi og þess að ekki tókst að halda uppi þjónustustigi í viðhaldsverkefnum þótt mikið af þeim lægju fyrir. Einnig var pöntunarstaða á nýjum fiskeldiskvíum á síðasta ársfjórðungi undir væntingum stjórnenda. Töluvert hefur þó áunnist í að bæta rekstur Mørenot Aquaculture frá fyrra ári og EBITDA hefur hækkað töluvert á milli ára.
Ekki liggja fyrir lokatölur um hagnað ársins en ljóst er að hann verður merkjanlega lægri en á fyrra ári, einkum vegna hærri afskrifta og hærra grunnvaxtastigs en á fyrra ári.
Vinna við ársuppgjör er enn í gangi og því geta lykiltölur tekið breytingum fram að birtingu. Hampiðjan mun birta niðurstöðu ársins þann 7. mars næstkomandi í samræmi við fjárhagsdagatal.
Nánari upplýsingar veitir Hjörtur Erlendsson, forstjóri, í síma 664-3361.