Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Mid Cap Iceland |
Sektor | Fastigheter |
Industri | Förvaltning |
Heimar hf. („Heimar“ eða „félagið“) hafa gengið frá samkomulagi um helstu skilmála um kaup á öllu hlutafé Grósku ehf. („Gróska“) og Gróðurhússins ehf. („Gróðurhúsið“).
Gróska á fasteignina Grósku að Bjargargötu 1, 102 Reykjavík, samfélag nýsköpunar og eina stærstu og metnaðarfyllstu skrifstofubyggingu landsins. Fasteignin er um 18.600 m2 að stærð ásamt 6.200 m2 bílakjallara með 205 stæðum, eða samtals um 24.800 m2. Gróðurhúsið rekur sprotasetur og vinnurými í fasteigninni.
Heildarvirði viðskiptanna er metið á 13.850 m.kr. og innifelur það virði fasteignarinnar og Gróðurhússins. Viðskiptin munu fela í sér yfirtöku á skuldabréfaflokknum GROSKA 29 GB. Flokkurinn er verðtryggður og ber 1,20% vexti. Gangvirði skuldabréfaflokksins á vaxtakjörum Heima er 4 milljarðar króna. Fyrirhugað er að kaupverðið muni greiðast að öllu leyti með útgáfu og afhendingu 258 milljón nýrra hluta í Heimum.
Stjórnendur Heima áætla að áhrif kaupanna á EBITDA félagsins á ársgrundvelli verði 780 m.kr. í kjölfar viðskipta.
Samkomulagið er háð ýmsum fyrirvörum, m.a. samþykki hluthafafundar, niðurstöðu áreiðanleikakannana, endanlega skjalagerð og samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Gróska hugmyndahús er suðupottur nýsköpunar á Íslandi. Gróska er samfélag þar sem saman koma frumkvöðlar, fyrirtæki, stjórnvöld, fjárfestar og menntastofnanir og virkja tengsl sín á milli. Í Grósku er skapað umhverfi fyrir einstaklinga og fyrirtæki þar sem hugmyndir verða að veruleika innan um auðugt mannlíf og menningu.
Meðal leigutaka í Grósku eru leikjaframleiðandinn CCP, bandaríska hugbúnaðarfyrirtækið NetApp, Vísindagarðar Háskóla Íslands, World Class, Íslandsstofa og fjölmörg önnur fyrirtæki sem eru í fararbroddi íslenskrar nýsköpunar. Einstök staðsetning Grósku, gæði hússins, nálægðin við vísindasamfélagið í Vatnsmýri og fjölbreytt mannlíf eru meðal ástæðna þess að Heimar hafa áhuga á að eignast fasteignina.
Uppbyggingaraðilar og eigendur Grósku verða eftir kaupin stærstu hluthafar Heima.
Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima: „Kaup Heima á Grósku munu leiða til aukinna verðmæta fyrir hluthafa félagsins . Kaupin falla vel að eignasafni félagsins og samræmast jafnframt þeirri sýn félagsins að skapa sterk kjarnasvæði. Þá er ákaflega ánægjulegt að fá þarna nýja og öfluga einkafjárfesta inn í hluthafahóp Heima sem munu styrkja enn frekar alþjóðleg tengsl okkar og tækifæri til að þróa fyrirtækið áfram.“
Birgir Már Ragnarsson, stjórnarformaður Grósku og meðeigandi Omega: „Gróska var frá upphafi metnaðarfullt verkefni og við erum afar stolt af því hvernig til hefur tekist. Beint samhengi er nú á milli Grósku og nýsköpunar á Íslandi og samfélagið sem þar býr á sér sjálfstætt og skapandi líf. Í viðræðum okkar við Heima þá höfum við sannfærst um að þar sé Grósku afar vel komið, enda deila forsvarsmenn þar okkar sýn og sannfæringu um tilgang og mikilvægi hússins fyrir íslenskt samfélag. Við, eigendur Omega, höfum lengi fylgst með Heimum og sjáum veruleg tækifæri til frekari uppbyggingar félagsins og vaxtar. Stefna Heima um að leggja áherslu á lykileignir á eftirsóttum stöðum er í samræmi við það sem við höfum séð í stærstu borgum erlendis. Þróunin hjá stórum fasteignafélögum á alþjóðavísu hefur verið í áttina að sterkum kjörnum þar sem eigendur horfa til langs tíma varðandi framtíðarsýn og þróun svæða. Slík fasteignasöfn hafa verið eftirsótt meðal fjárfesta, til dæmis á hinum Norðurlöndunum og í Norður-Evrópu. Með framlagi Grósku inn í Heima og kaupum á verulegum eignarhlut erum við að tryggja okkur miða í þá vegferð og komum inn sem langtímafjárfestar í fyrirtækið. Við teljum að reynsla okkar, sambönd og þekking muni hjálpa þeim áformum og hlökkum til samstarfsins.“
Á aðalfundi Heima, sem haldinn verður 11. mars næstkomandi, er fyrirhugað að leggja fram tillögu um að veita stjórn heimild til útgáfu nýs hlutafjár í Heimum til þess að standa við uppgjör á fyrirhuguðum viðskiptum.
Frekari grein verður gerð fyrir viðskiptunum á síðari stigum eftir því sem tilefni er til og samræmi við lögbundna upplýsingagjöf félagsins.
LEX lögmannsstofa er ráðgjafi Heima í ferlinu og LOGOS slf. ráðgjafi hluthafa Grósku og Gróðurhússins.
Nánari upplýsingar veitir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima, s. 821 0001