Bifogade filer
Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Mid Cap Iceland |
Sektor | Telekom & Media |
Industri | Telekommunikation och -tjänster |
Helstu niðurstöður úr rekstri á 4F 2024
- Tekjur á fjórða ársfjórðungi (4F) 2024 námu 7.431 m.kr. samanborið við 6.659 m.kr. á sama tímabili 2023 og jukust um 11,6%. Tekjur af kjarnavörum Símans, farsíma, gagnaflutningi og sjónvarpsþjónustu jukust um 5,3% á milli tímabila.
- Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.071 m.kr. á 4F 2024 og hækkar um 457 m.kr. eða 28,3% frá sama tímabili fyrra árs. EBITDA hlutfallið er 27,9% á 4F 2024 en var 24,2% á sama tímabili 2023. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 944 m.kr. á 4F 2024 samanborið við 634 m.kr. á sama tímabili 2023.
- Hrein fjármagnsgjöld námu 306 m.kr. á 4F 2024 en námu 120 m.kr. á sama tímabili 2023. Fjármagnsgjöld námu 489 m.kr., fjármunatekjur voru 195 m.kr. og gengistap nam 12 m.kr.
- Hagnaður á 4F 2024 nam 517 m.kr. samanborið við 414 m.kr. hagnað á sama tímabili 2023.
- Vaxtaberandi skuldir samstæðu að leiguskuldbindingum meðtöldum námu 17,2 ma.kr. í árslok 2024, en voru 10,5 ma.kr. í árslok 2023. Handbært fé í árslok 2024 nam 0,8 ma.kr., en var 1,8 ma.kr. í árslok 2023. Staða útlána hjá Símanum Pay var 3,3 ma.kr. í árslok 2024. Hreinar vaxtaberandi skuldir / 12M EBITDA í árslok 2024 var 1,72.
- Eiginfjárhlutfall Símans var 44,0% í árslok 2024 og eigið fé 18,1 ma.kr.
María Björk Einarsdóttir, forstjóri:
„Við erum ánægð með afkomu fjórða ársfjórðungs, sem var jafnframt sterkasti fjórðungur ársins. Mikill meðbyr var í sölu sjónvarpsáskrifta á fjórðungnum sem við þökkum meðal annars áherslu okkar á að framleiða leikið íslenskt efni í hæsta gæðaflokki. Tæplega 50 þúsund heimili voru áskrifendur að Sjónvarpi Símans Premium í árslok sem undirstrikar vinsældir veitunnar.
Í fjarskiptaþjónustu sáum við einnig fjölgun áskrifenda, einkum í farsímaþjónustu. Internetáskriftum hefur fjölgað hægar, en jákvæðu fréttirnar eru þær að við höfum séð brottfall fara lækkandi í kjölfar breyttrar þjónustustefnu. Hún felur í sér aukna áherslu á að nýta gögn og frumkvæðisaðgerðir til þess að tryggja bestu mögulegu upplifun fyrir viðskiptavini þegar kemur að stöðugleika og gæðum netsambands á heimilum. Samhliða þessari áherslubreytingu hefur dregið úr brottfalli sem er virkilega jákvætt, enda er alþekkt að kostnaður við að sækja nýjan viðskiptavin er margfalt hærri en að halda núverandi viðskiptavini.
Auglýsingasala var sterk á fjórðungnum meðal annars vegna alþingiskosninga sem bættust við hefðbundna afsláttardaga og jólaverslun. Sjónvarp Símans og Billboard hafa fest sig í sessi meðal öflugustu auglýsingamiðla landsins og við getum nú boðið auglýsendum upp á einstakan sýnileika með samspili sjónvarps og umhverfismiðla.
Við héldum áfram vöruþróun í fjártækni og hefur fyrirtækjakort Símans Pay átt mikilli velgengni að fagna frá því að varan kom formlega út á haustmánuðum. Í desember tókum við loks við rekstri Noona Iceland og nú í febrúar 2025 erum við að undirbúa að taka við lánasafni sem við keyptum, en eftir breytinguna mun lánabók Símans Pay standa í fimm milljörðum króna. Eitt af helstu verkefnum ársins 2025 verður að samþætta og þróa fjártæknilausnir Símans og Noona enn frekar samhliða því að móta skýra langtímasýn í kringum starfsþáttinn.
Fyrir fáeinum vikum kynntum við breytingar á skipuriti félagsins, sem ætlað er að styðja við nýja stefnu sem verið er að innleiða í alla kima fyrirtækisins. Á sama tíma og við ætlum okkur að standa vörð um þann sterka grunnrekstur sem Síminn hefur verið þekktur fyrir, ætlum við að finna leiðir til að vaxa og þróast til framtíðar litið, bæði með innri og ytri vexti. Jafnframt viljum við tryggja framúrskarandi upplifun af vörum og þjónustu Símans og skapa stafrænt samfélag snjallra lausna fyrir fólk og fyrirtæki.“
Kynningarfundur 19. febrúar 2025
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 19. febrúar 2025 kl. 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 25, Reykjavík. Hluthafar, fjárfestar og markaðsaðilar eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn. Á fundinum munu María Björk Einarsdóttir forstjóri og Óskar Hauksson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast í fréttakerfi Nasdaq Iceland og á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/fjarfestar/uppgjor-og-arsskyrslur.
Jafnframt verður hægt að fylgjast með fundinum í netstreymi á vefslóðinni: https://www.siminn.is/fjarfestar/fjarfestakynning.
Þeir sem vilja bera upp spurningar geta sent þær á fjarfestatengsl@siminn.is og verður þeim svarað í lok fundarins.
Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:
María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans (maria@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans (oskarh@siminn.is)