Bifogade filer
Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Mid Cap Iceland |
Sektor | Telekom & Media |
Industri | Telekommunikation och -tjänster |
Þann 26. nóvember 2024 tók stjórn Símans hf. ákvörðun um að veita forstjóra og tveim framkvæmdastjórum kauprétti að samtals 22.500.000 hlutum í félaginu, eða sem samsvarar um 0,85% af útgefnu hlutafé Símans. Ákvörðunin byggir á samþykkt aðalfundar frá mars 2023. Þar af var forstjóra veittur kaupréttur að samtals 11.250.000 hlutum.
Kaupréttarsamningunum, sem gerðir voru 27. nóvember 2024, er ætlað að samtvinna hagsmuni starfsmanna og félagsins til lengri tíma. Skilmálar þeirra eru í samræmi við starfskjarastefnu félagsins sem samþykkt var á aðalfundi Símans hinn 14. mars 2024.
Meginefni kaupréttarsamninganna er eftirfarandi:
- Veittur er kaupréttur á hlutabréfum á grunnverðinu ISK 12,31 fyrir hvern hlut. Grunnverð skal vera eigi lægra en vegið meðalverð með hluti félagins síðustu 10 heilu viðskiptadaga á aðalmarkaði Nasdaq Ísland með hluti félagsins fyrir úthlutun kauprétta. Grunnverð samninganna er sama verð og núgildandi nýtingarverð annarra stjórnenda sem gerðu kaupréttarsamning 17. maí 2023, uppreiknað m.t.t. vaxta. Við grunnverð bætast vextir sem skulu samsvara stýrivöxtum Seðlabanka Íslands á tímabilinu frá dagsetningu kaupréttarsamnings fram til nýtingardags, að lágmarki 4% á ári. Verðið skal leiðrétt m.a. fyrir arðgreiðslum sem kunna að verða greiddar frá útgáfudegi kaupréttanna.
- Kauprétturinn ávinnst á þremur árum frá úthlutun (e. vesting time). Að ávinnslutímabili loknu verða kaupréttir nýtanlegir í þremur áföngum, sem hefjast í kjölfar birtingar ársuppgjörs félagsins ár hvert á árunum 2028 - 2030. Kaupréttarhafi getur nýtt þriðjung kaupréttar í kjölfar birtingar ársuppgjörs eða hálfsársuppgjörs félagsins innan hvers tímabils, og getur frestað nýtingu áunnins kaupréttar til næsta nýtingartímabils.
- Kaupréttarhafar eru skuldbundnir til að eiga fram að starfslokum hluti sem nema andvirði hagnaðar, að frádregnum sköttum, af innleystum kaupréttum samsvarandi 6-földum grunnmánaðarlaunum kaupréttarhafa (12-földum í tilviki forstjóra), mælt í virði hlutafjáreignar í félaginu.
- Almennt skulu kaupréttir falla niður ef ráðningarsambandi kaupréttarhafa við félagið er slitið fyrir lok ávinnslutíma.
- Komi starfslok kaupréttarhafa til að loknum ávinnslutíma vegna atvika sem kaupréttarhafa verður ekki um kennt skal hann þó halda kauprétti sínum að hlutunum og verður þá heimilt að nýta allan áunninn kauprétt í kjölfar starfsloka.
- Verði breyting á yfirráðum í Símanum er kaupréttarhöfum heimilt að nýta allan kauprétt sinn í kjölfar birtingar næsta ársfjórðungsuppgjörs félagsins frá því yfirtökutilboð er gert eða tilboðsskylda myndast í félaginu.
Heildarfjöldi útistandandi kauprétta sem Síminn hefur veitt stjórnendum og tilteknum lykilstarfsmönnum sínum nemur nú 69.375.000 hluta, eða um 2,62% hlutafjár í félaginu. Alls eru um að ræða 19 starfsmenn. Heildarkostnaður félagsins vegna útistandandi samninga út nýtingartímann er áætlaður um 90 milljónir og er þá byggt á reiknilíkani Black-Scholes.
Upplýsingar um kauprétti sem veittir voru meðlimum framkvæmdastjórnar Símans eru í viðhengi.