Beskrivning
| Land | Island |
|---|---|
| Lista | Small Cap Iceland |
| Sektor | Telekom & Media |
| Industri | Telekommunikation och -tjänster |
Mikilvægum áfanga náð varðandi framtíðarrekstrarfyrirkomulag Sendafélagsins
Sýn hf. (kt. 470905-1740) og Nova hf. (kt. 531205-0810) hafa í dag undirritað samstarfssamning og hluthafasamning sem kveða á um framsal 4G og 5G dreifikerfa (e. Radio Access Network eða RAN) félaganna til Sendafélagsins ehf. (kt. 440515-1850), í þeim tilgangi að ná fram enn meiri hagræðingu í rekstri þessara innviða og auka fjárfestingargetu. Með gildistöku samstarfssamningsins fellur niður samkomulag aðila um helstu skilmála þessa samstarfs, dags. 21. ágúst 2025.
Með samstarfssamningnum skuldbinda Sýn og Nova sig til að framselja allan 4G og 5G fjarskiptabúnað sinn sem tengist RAN-kerfinu, þar á meðal senda, loftnet og annan sérhæfðan búnað, til Sendafélagsins. Endurgjald fyrir framsalið verður tvíþætt; annars vegar í formi nýs hlutafjár í Sendafélaginu og hins vegar í formi hluthafalána frá Sýn og Nova. Verðmat á framlögum félaganna er nánar útfært í samningnum.
Hlutafé Sendafélagsins verður aukið og skipt í tvo flokka. Flokkur A verður 1.000 m.kr. að nafnvirði með fullum réttindum, þar með talið atkvæðisrétti, og skiptist jafnt milli Sýnar og Nova (500 m.kr. hvor). Flokkur B verður 818 m.kr. að nafnvirði, án atkvæðisréttar, en með öðrum sömu réttindum og fylgja A-flokki. Upphaflegt heildareignarhald (samanlagt úr A- og B-flokki) mun miðast við að Sýn eigi 45% en Nova 55%, í samræmi við væntingar um framlag hvors aðila til sjóðstreymis Sendafélagsins. Endanlegt eignarhald mun þó ráðast af raunverulegu framlagi hvors aðila til sjóðstreymis Sendafélagsins og verður endurskoðað í árslok 2026 miðað við hlutfall viðskipta aðila í desember það ár.
Framkvæmd samstarfsins er háð fyrirvörum, m.a. um samþykki stjórna félaganna á þeim samningum sem undirritaðir voru í dag, og gerð og samþykki annarra samninga sem unnið er að, þar á meðal kaup-láns- og þjónustusamninga. Í þjónustusamningunum verður kveðið á um þá þjónustu sem Sendafélagið mun veita Sýn og Nova með afnotum af RAN kerfinu o.fl. og endurgjald aðila fyrir þá þjónustu. Þá er framkvæmdin háð samþykki hluthafafundar í Sendafélaginu fyrir hlutafjárhækkuninni og fyrrnefndum kaup- og lánssamningum. Stefnt er að því að ljúka gerð þessara samninga svo fljótt sem auðið er.
Gert er ráð fyrir að formlegu framsali fjarskiptabúnaðarins ljúki 31. desember 2025 og að starfsemi Sendafélagsins á nýjum rekstrargrundvelli hefjist 1. janúar 2026.
Áætluð fjárhagsleg áhrif á Sýn hf.
Sýn hf. áætlar að viðskiptin muni hafa eftirfarandi áhrif á rekstur félagsins á ársgrundvelli:
- EBITDAaL mun lækka um 250 m.kr. þar sem kostnaður sem áður færðist sem afskriftir og fjármagnskostnaður færist yfir í rekstrarkostnað.
- Áætluð áhrif á EBIT eru lækkun um u.þ.b. 30 m.kr.
- Árlegar fjárfestingar (CAPEX) munu lækka um u.þ.b. 200 m.kr.
- Skuldir munu lækka um 960 m.kr. eftir að Sendafélagið hefur endurfjármagnað sig og greitt upp hluthafalán.
Afkoma Sendafélagsins ehf. mun færast undir liðinn „áhrif hlutdeildarfélaga“ í rekstrarreikningi Sýnar. Samkvæmt núverandi áætlunum er gert ráð fyrir að heildarafkoma Sendafélagsins verði um 130 m.kr. á fyrsta rekstrarári.
Sýn mun upplýsa markaðinn um framvindu málsins í samræmi við upplýsingaskyldu skráðra félaga.
Nánari upplýsingar veita fjárfestatengsl félagsins í gegnum netfangið fjarfestatengsl@syn.is