Beskrivning
Land | Island |
---|---|
Lista | Mid Cap Iceland |
Sektor | Finans |
Industri | Försäkring |
Skagi skráð sem formlegt nafn samstæðunnar
Skagi hf. er nú formlega skráð sem nafn móðurfélags VÍS trygginga hf., Fossa fjárfestingarbanka hf. og Íslenskra verðbréfa hf. Móðurfélag samstæðunnar hefur undanfarin misseri verið starfrækt undir nafni Vátryggingafélags Íslands hf. en fær nú nafnið Skagi í kjölfar þess að tryggingarekstur var færður í dótturfélag í upphafi árs. Þetta er lokahnykkur í þeirri vegferð að koma samstæðu Skaga í sitt framtíðarhorf.
Við sameiningu VÍS og Fossa fjárfestingarbanka árið 2023 hófst umbreytingarferli félaganna í öfluga fjármálasamstæðu. Framtíðarfyrirkomulag samstæðunnar, sem var kynnt þá, gerði ráð fyrir móðurfélagi og þremur öflugum dótturfélögum; VÍS tryggingum hf., Fossum fjárfestingarbanka hf. og SIV eignastýringu. Á síðasta ári gekk Skagi frá kaupum á Íslenskum verðbréfum og sameinast nú starfsemi eignastýringar undir nafni Íslenskra verðbréfa. Nafnið Skagi hefur nú verið skráð formlega fyrir móðurfélagið, sem undirstrikar skýrleika og stefnumótun félagsins til framtíðar.
„Við höfum unnið markvisst að samþættingu starfsemi okkar með það að markmiði að skapa aukið virði fyrir viðskiptavini, hluthafa og samfélagið í heild,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga. „Skráning nafnsins er mikilvægur áfangi í þeirri vegferð. Nafnið Skagi endurspeglar þá sameinuðu krafta sem við höfum byggt upp innan samstæðunnar og styrkir stöðu okkar á fjármála- og tryggingamarkaði.“
Öflug tryggingastarfsemi og aukin ánægja viðskiptavina
Tryggingafélagið VÍS hefur á síðustu misserum styrkt stöðu sína á markaði með breyttum áherslum á sölufyrirkomulagi félagsins og aukinni þjónustu við viðskiptavini. Fyrirtækið hefur unnið að bættu þjónustuflæði, einföldun vátryggingarferla og aukinni sjálfsafgreiðslu fyrir viðskiptavini.
„Við höfum séð miklar framfarir í tryggingastarfseminni þar sem okkur hefur tekist að auka ánægju viðskiptavina og bætt afkomu félagsins,“ segir Haraldur. „Við höfum einfaldað samskipti við viðskiptavini, innleitt skilvirkari skaðauppgjör og aukið áherslu á forvarnir, sem hefur skilað sér í jákvæðum árangri, bæði fyrir félagið og tryggingataka.“
Vaxandi eignastýring og sterkari markaðsstaða
Sameinað félag SIV eignastýringar og ÍV sjóða mun hljóta nafnið Íslensk verðbréf og til verður öflugt eigna- og sjóðastýringarfélag sem byggir á traustum grunni og reynslumiklum hópi sérfræðinga. Góður vöxtur hefur verið í eignastýringu innan Skaga og á síðasta ári nær tvöfölduðust eignir í stýringu innan samstæðunnar. Íslensk verðbréf hafa upp á að bjóða fjölbreytt úrval fjárfestingakosta fyrir jafnt almenna fjárfesta sem og fagfjárfesta.
Áframhaldandi markviss vöxtur Fossa
Fossar fjárfestingarbanki hefur á undanförnum árum tekið markviss skref til að vaxa inn í hlutverk leiðandi og sérhæfðs fjárfestingarbanka á Íslandi. Bankinn hefur notið þess að vera hluti af fjárhagslega sterkri samstæðu Skaga sem hefur stutt við vöxt bankans auk þess sem mikil tækifæri hafa skapast í bæði kostnaðar- og tekjusamlegð innan samstæðunnar. Ennfremur hefur bankinn átt greitt aðgengi að markaðsfjármögnun á skuldabréfamarkaði á samkeppnishæfum kjörum sem hefur stutt við vöxt á bankastarfsemi Fossa.
„Við höfum nú þegar séð mikinn tekjuvöxt í fjármálastarfsemi Skaga og á sama tíma höfum við náð fram verulegum hagræðingaráhrifum,“ bætir Haraldur við. „Við munum halda áfram að þróa þjónustu okkar með það að leiðarljósi að skapa sterkari og hagkvæmari samstæðu til framtíðar þar sem styrkleika er að finna innan rekstrareininga og með samvinnu þeirra.“
Með þessari skráningu staðfestir Skagi stefnu sína um að vera leiðandi afl í trygginga- og fjármálaþjónustu á Íslandi.